Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor segir líklegast eins og staðan er í dag að efnahagsáhrif Kórónuveirunnar hér á landi verði svipuð og á heimshagkerfið : um 0,3% landsframleiðslu. Óvissan sé hinsvegar mikil, og nái faraldurinn fótfestu hér gætu þau orðið mun meiri.

„Ég hugsa að besta ágiskunin sé að við séum einhvers staðar nálægt þessum áhrifum á heimshagkerfið; að það trítli niður til okkar í svipaðri stærðargráðu. Skekkjumörkin eru hinsvegar af sömu stærðargráðu og áhrifin sjálf, þannig að þetta eru nú ekkert rosalega ábyggilegar tölur. Menn eru að skjóta svolítið út í loftið út frá því sem hefur gerst áður sem er sambærilegt.“

Hann segir stærstu beinu áhrifin á Ísland vera fallandi olíuverð og fækkun kínverskra ferðamanna. Það sem sé sérstaklega slæmt við að missa kínverska ferðamenn um þessar mundir sé að þeir hafi verið að koma á heppilegum tíma. „Þeir hafa mikið verið að koma í kringum kínverska nýárið, sem er mjög góður tími fyrir ferðaþjónustuna. Ungt fólk með menntun og ágætis kaupgetu.“

Allt aðrar tölur ef til lokunar landsins kemur
„Ef faraldurinn hins vegar kemur hingað af fullum krafti og við þurfum að berjast við hann í návígi, þá breytast þessar tölur.“

Fyrst um sinn yrðu áhrifin lítil, en dragist slík lokun á langinn hafi hún sífellt meiri áhrif eftir því sem á líður. „Kannski er það svoleiðis í flestum fyrirtækjum að þú mátt við því að missa í 1-2 vikur þriðjunginn af mannskapnum án þess að þurfa að hægja alveg ofboðslega mikið á.“

Þórólfur bendir á að sóttvarnalæknir getur fyrirskipað lokun landsins, telji hann tilefni til. Gróft á litið getur hann sér til um að skaðinn gæti orðið allt að 1% af landsframleiðslu – um 28 milljarðar króna – færi svo að ástandið hér yrði eitthvað í líkingu við það sem ríkir nú í Kína.

„Eftir 10 daga þá held ég að það færi nú að hægjast á, og menn væru komnir í kannski um 90% afköst, og svo myndi það lækka um nokkur prósent fyrir hverja viku eftir það.“ Þórólfur býst við að sá innflutningur sem Íslendingar myndu sakna hvað mest í efnahagslegum skilningi væri eldsneyti. „Það er það sem heldur öllu gangandi.“ Hugsanlega yrði þó hægt að taka við olíuskipum án nokkurra beinna samskipta sem gætu leitt til smits.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .