Hæstiréttur hefur fallist á beiðni íslenska ríkisins um áfrýjunarleyfi í máli Ásbjörns Ólafssonar ehf. gegn ríkinu. Málið snýst um fyrirkomulag á útboði tollkvóta landbúnaðarafurða en Landsréttur dæmdi það ólögmætt í mars. Standi niðurstaða Landsréttar óhögguð er ljóst að hún mun hafa áhrif á fleiri innflutningsaðila en fyrrnefnt félag.

Líkt og sagt var frá af Viðskiptablaðinu fól dómur Landsréttar í sér að þetta var í þriðja sinn á sex árum sem fyrirkomulag útboðsins er dæmt í andstöðu við ákvæði stjórnarskrárinnar. Í kjölfar héraðsdóms árið 2017 var fyrirkomulaginu breytt en í kjölfar afleiðinga farsóttarinnar var ákveðið að hverfa aftur til þess fyrirkomulags sem áður hafði verið dæmt ólögmætt. Á það að gilda tímabundið á meðan dregur úr áhrifum faraldursins.

Ákvörðun Hæstaréttar hvað varðar áfrýjunarleyfisbeiðnina hefur enn ekki verið birt en málið er hins vegar komið á lista á vef réttarins yfir áfrýjuð mál. Sökum þess er ekki unnt, að svo stöddu, að greina frá því á hvaða forsendum fallist var á beiðnina.