Bank2 Holding og Stig A. Rognstad, hluthafar í norska verðbréfafyrirtækinu Norse Securities, hafa fallið frá lögbannskröfu á sölu á hlutum í félaginu til Íslandsbanka, segir í tilkynningu.

Íslandsbanki samþykkti í síðasta mánuði að taka yfir Norse Securities og Norse Kapitalforvaltning. Hins vegar var sagt frá því í norskum fjölmiðlum að Bank2 og Rognstad ætluðu að senda norksum dómstólum beiðni um tímabundið lögbann á sölunni. Beiðnin hefur nú verið afturölluð, segir í tilkynningunni.

"Bank2, annars vegar, og Norse AS og Stig A. Rognstad, hins vegar, hafa komist að samkomulagi þar sem Bank2 fellur frá kröfu um lögbann á sölu Rognstad og Norse AS á Norse Securities ASA. Samningurinn kveður á um að Bank2 muni ekki leita neinna réttarúrræða gegn Norse AS og Stig A. Rognstad í tengslum við framangreinda sölu," segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.

"Ég er ánægður með þessa niðurstöðu" segir Stig A. Rognstad, forstjóri og eigandi Norse AS. "Áreiðanleikakönnun Íslandsbanka stendur nú yfir og ég vonast til að við getum lokið því ferli sem fyrst", bætir Rognstad við, en hann mun áfram verða forstjóri í fyrirtækinu sem hann hefur stýrt frá árinu 1995.