Viðskiptanefnd Alþingis hefur fallið frá þeim breytingartillögum að skilanefndir bankanna verði lagðar niður eftir hálft ár og slitanefndir taki við störfum þeirra. Þetta kemur fram í nefndaráliti sem dreift hefur verið á Alþingi.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá stóð til að setja það í lög að skilanefndir verði lagðar niður eftir hálft ár. Tillagan var gagnrýnd af hálfu skilanefnda bankanna og ýmissa kröfuhafa.

Þeir síðarnefndu óttuðust meðal annars að sá trúnaður og það traust sem náðst hefði milli þeirra og skilanefnda myndi rofna yrði nýir menn settir í stað þeirra sem nú væru í skilanefndunum.

Viðskiptanefnd þingsins hefur fjallað um málið og komist að þeirri niðurstöðu að óþarft sé að tilgreina sérstaklega hvenær leggi eigi skilanefndirnar niður.

„Nefndin fellst á að óþarft sé að tilgreina tiltekinn tíma í þessu efni en gerir eftir sem áður ráð fyrir því að nefndarmönnum í skilanefndum fækki eftir því sem verkefni nefndanna minnka en gera má ráð fyrir að umfang verkefna þeirra minnki þegar frá líður," segir í nefndarálitinu sem sjá má hér.