Ekki verða undirritaðir fleiri samningar um styrki frá ESB vegna svokallaðra IPA-verkefna. Áætlanir gerðu ráð fyrir að 3,5 milljörðum króna yrði varið í verkefni hér á landi vegna áranna 2012 og 2013. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Núverandi stjórnvöld gerðu formlegt hlé á aðildarviðræðum Íslands við ESB, og samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hefur stjórnvöldum borist svar frá framkvæmdastjórn ESB þar sem áréttað er að skilyrði fyrir IPA-aðstoð sé að viðtökulandið stefni að inngöngu.

Þau verkefni sem byrjað er á eru þau sem voru á fyrstu landsáætlun af þremur og nema um 1,8 milljörðum króna. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu viðræðurnar við ESB um framhald þeirra fara fram í seinni hluta næsta mánaðar. Verkefnin sem ekki verður samið um voru á landsáætlun fyrir 2012 og 2013. Þar eru meðal annars verkefni tengd þýðingum, uppbygginu stjórnsýslunnar og innleiðingu tilskipana ESB. Hins vegar er þar líka að finna styrki til verkefna vegna byggða- og atvinnuþróunar að upphæð allt að 1,3 milljörðum króna.

Umsóknarferli fyrir þá styrki var hafið áður en hlé var gert á aðildarviðræðunum og höfðu fjölmargir aðilar, samtök og stofnanir, lagt mikla vinnu í undirbúning og skipulag. Samkvæmt heimildum lágu fyrir lokadrög varðandi þau verkefni sem átti að styrkja, en þar á meðal var Matís með verkefni upp á 160 milljónir, Nýsköpunarmiðstöðin með verkefni upp á 377 milljónir, auk ýmissa verkefna í tengslum við atvinnuuppbyggingu, sem áttu von á styrkjum að upphæð 550 milljónir króna.

Stjórnvöld munu þó hafa í hyggju að bera kostnaðinn af því að hefja framkvæmd sumra verkefnanna. Sérstaklega tilraunaverkefni á sviði atvinnu- og byggðaþróunar, sem gætu annars fallið um sjálf sig.