Peningafölsun á vegum Þriðja ríkis nasista eyðilagði traust á breskum peningaseðlum um lok seinni heimsstyrjaldar, að því er fram kemur í nýbirtum leyniskjölum frá bresku leyniþjónustunni MI5. Nasistar hófu framleiðslu á fölsuðum seðlum árið 1940 og var ætlunin að nota þá um og eftir innrás í Bretland, sem aldrei varð af.

Peningaprentunin stöðvaðist ekki þótt hætt hefði verið við innrásina og alls er talið að prentaðir hafi verið seðlar að nafnvirði um 134 milljóna punda, sem jafngilti um 10% af peningum í umferð á þeim tíma. Fölsunin fór fram í útrýmingarbúðunum í Sachsenhausen og voru fangar látnir hanna og prenta seðlana. Urðu þeir svo færir í því sem þeir gerðu að ómögulegt er fyrir nokkurn annan en sérfræðing að greina á milli raunverulegra og falsaðra seðla, enn þann dag í dag. Fangarnir reyndu að skemma fyrir nasistum með því að merkja seðlana, en það reyndist ekki nóg til að koma í veg fyrir að fölsuðu seðlarnir græfu undan trausti á breskri mynt.

Seðlunum var komið í umferð annars vegar með því að smygla þeim til Bretlands eða með því að nota þá í hlutlausum ríkjum eins og Portúgal og Spáni. Árið 1945 sá Englandsbanki enga leið færa aðra en að innkalla alla seðla sem voru fimm pund eða hærri og prenta nýja.