Það er ekki á hverjum degi, sem þjóðaröryggisráð er kvatt saman, hvað þá til þess að ræða fjölmiðlun og ógnir hennar. Í liðinni viku var þó greint frá því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði tekið falsfréttir og upplýsingaóreiðu til umræðu í Þjóðaröryggisráði, en það ráðgerði málþing næsta haust til að ræða þessi alvarlegu mál.

Fram kom að forsætisráðherra hygðist láta gera tillögur „að norrænni fyrirmynd" um hvernig mætti auka meðvitund almennings um þessa ógn sem nú steðjaði að lýðræðissamfélögum.

Tildrög málsins eru að Persónuvernd sendi stjórnarráðinu bréf í upphafi árs, þar sem varað var við þeim hættum sem nú steðja að lýðræðislegum kosningum vegna vafasamra frásagna á samfélagmiðlum, til þess fallnar að villa um fyrir fólki. Evrópusambandið hefði og vakið máls á þessari hættu af völdum falsfrétta og upplýsingaóreiðu, en forsætisráðherra rætt þau í þjóðaröryggisráði. Í frétt í Ríkisútvarpinu sagði forsætisráðherra að nauðsynlegt væri að læra af reynslu annarra þjóða um hvernig umgangast yrði hina nýju tækni, því henni yrði ekki breytt. Benti hún á að Finnar hefðu staðið fyrir mikilli fræðslu um upplýsingaóreiðu og hvernig hægt væri að bera kennsl á falsfréttir með góðum árangri, en þar voru embættismenn, fjölmiðlafólk og fleiri sendir á námskeið um þessi mál og börn landsins einnig uppfrædd um þau í skólum.

Katrín kvaðst mjög ánægð með að Íslendingar væru að vakna til vitundar um þessi mál og að stjórnvöld myndu ekki láta sitt eftir liggja, til dæmis með fyrrnefndu málþingi, þar sem þau yrðu rædd „út frá þessari breiðu öryggisnálgun sem við erum að innleiða". Betur mætti þó ef duga skyldi og hefði tilmælum í þá veru verið beint til nefndar, sem ynni að frumvörpum um upplýsinga- og tjáningarfrelsi.

Þessum ráðstöfunum til stuðnings var nefnt að gervimenni fylgdu Íslendingum á Twitter, fjöldi gervisíðna á Facebook, falskar vinabeiðnir algengar og þar fram eftir götum, sem benti til þess að hér á landi væri ástandið svipað og víða annars staðar, þar sem falsfréttir og kerfisbundinn undirróður væri sendur út með skipulögðum hætti, „ekki ósvipað og gerðist í Bretlandi fyrir Brexit-kosningarnar og fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum".

Forsætisráðherra fullvissaði þjóð sína um að stjórnvöld myndu bregðast við þessu, „því þetta sannarlega er eitthvað sem er ógn við okkar lýðræðissamfélag."

* * *

Það var og. Samt sem áður voru þess nú engin dæmi nefnd, að falsfréttir eða undirmál á netinu hefðu verið notuð til þess að grafa undan gangverki lýðræðisins á Íslandi. Alls ekki nein. Ekki eitt.

Nú er það auðvitað gleðilegt að stjórnvöld auðsýni árvekni til þess að tryggja vörn lýðræðisins og öryggi borgaranna, en við blasir að þar sem öðrum þræði er um tjáningarfrelsið að tefla verður að fara fram með ýtrustu varúð og ráðstafanir stjórnvalda að vera nauðsynlegar, gagnlegar og hóflegar.

Það eitt, að engin íslensk dæmi skyldu vera nefnd, hlýtur að fá fólk til þess að staldra við í þeim efnum. Íslendingar eru, sem kunnugt er, nánast heimsmethafar í Facebook-notkun (en miklu slappari á Twitter) og ekki hefur tilefnin -  kosningar -  skort á undanförnum árum. Má ekki gera ráð fyrir því að einhver dæmi fyndust um falsfréttir eða „upplýsingaóreiðu"  í því samhengi ef ógnin væri raunveruleg og bráð?

* * *

Í því samhengi er rétt að horfa til þess að áhyggjur af falsfréttum komu fyrst upp fyrir allnokkrum árum, aðallega vestanhafs, en einnig sums staðar í Evrópu, oftlega blandnar áhyggjum af tilraunum Rússa og Kínverja til þess að hafa áhrif á lýðræðislegar ákvarðanir í hinum frjálsa heimi. Óvænt úrslit í ýmsum kosningum - t.d. forsetakosningum vestra og Brexit-kosningunni í Bretlandi -  urðu án efa til þess að auka grunsemdir um einhver myrkraverk af því taginu.

Um þessar mundir hafa hins vegar verið að koma fram fyrstu stóru rannsóknirnar á falsfréttum og áhrifum þeirra, sem gerðar hafa verið af vandvirkni og án þess uppnáms, sem óneitanlega ríkti um þau efni fyrir 2-3 árum.

Þær rannsóknir hafa, líkt og áður hefur verið tæpt á í þessum dálki, bent til þess að fregnir af falsfréttum og áhrifum þeirra hafi verið mjög verulega orðum auknar. Tiltölulega fáir kjósendur hafi litið slíkar fregnir augum og ósennilegt sé að margir þeirra hafi látið þær hafa slík áhrif á sig að kosningar hafi á einhvern hátt oltið á þeim. Aðalástæðan er sú að flestir þeirra, sem á annað borð sáu slíkar falsfréttir, hafi verið harla sannfærðir fyrir.

Almennt má segja að helstu merkjanlegu áhrifin kunni að hafa verið aukin kjörsókn í kjördæmum, þar sem mögulega munaði um það. Örðugt er þó að fullyrða nokkuð um það. Óvænt kosningaúrslit hafa orðið í mörgum löndum heims, einmitt vegna þess að ýmsir kjósendur, sem yfirleitt hafa setið heima, komu loks á kjörstað. Fyrir því eru þó ýmsar nærtækari ástæður en falsfréttir og umfram allt sást sú þróun víða þar sem engin dæmi voru um nokkra ýtni fallsfrétta eða upplýsingaóreiðu. Víða um heim hefur gætt verulegrar undiröldu popúlisma af ýmsu tagi, þar sem hinn sameiginlegi rauði þráður eru almennar efasemdir um ráðandi öfl og valdakerfi.

* * *

Áður en íslensk stjórnvöld fara að ráðskast of mikið með þegnana og fjölmiðlun, hlýtur að verða að gera kröfu um að þau afli sér viðeigandi og ýtarlegri gagna um ástandið á Íslandi. Ekkert slíkt liggur fyrir enn og fjölmiðlarýnir hefur ekki frétt af neinum dæmum þess heldur.

Nú hefur auðvitað borið á kvörtunum einstakra stjórnmálamanna undan óvæginni, gagnrýni í sinn garð, en það eru ekki falsfréttir. Slík gagnrýni, undirróður hugsanlega, kanna að varða við meiðyrðalöggjöf eða brjóta í bága við lög um fjármál stjórnmálaframboða, en eru ekki sjálfkrafa falsfréttir fyrir vikið. Kröfur um að leyfisbinda eða hemja pólitíska umræðu með þeim hættu eru fals. Auðvitað má líka vera að embættismenn séu með þessum hætti að reyna að skapa sér ný verkefni, ný störf og aukið vægi. Enginn efnahagssamdráttur þar! En þar til dæmi eru nefnd, þá eru þessar forsendur falsfrétta falskar. Og þær geta vel verið tjáningarfrelsinu hættulegar.