Forstjóri tæknirisans Apple kallar eftir því að tækniheimurinn ráðist í aðgerðir gegn því sem skilgreint hefur verið sem „falsfréttir“ og hann segir vera að spilla internetinu.

Í viðtalið við dagblaðið The Daily Telegraph sagði Cook að tæknifyrirtæki yrðu að sameinast í baráttunni og nýta krafta sína til að draga úr vægi slíkra „frétta“. Aðrir framamenn í tækniheiminum á borð við Mark Zuckerberg, forstjóra Facebook, hafa einnig vakið athygli á vandamálinu þó Cook gangi ef til vill hvað lengst með málflutningi sínum. Í viðtalinu sagði hann falsfréttir drepa hug fólks og að þær væru orðnar að plágu víðsvegar um heiminn.

Hugtakið „falsfréttir“ er ætlað að skilgreina netfréttir sem hafa það að markmiði að blekkja lesendur. Fréttunum er gjarnan deilt í gegnum samfélagsmiðla þar sem þær afla höfundum þeirra tekna en slíkar „fréttir“ hafa einnig verið notaðar í pólitískum tilgangi. Falsfréttir fengu aukna athygli í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum, en sem dæmi má nefna að falsfrétt sem sagði frá því að páfinn hefði ákveðið að lýsa yfir stuðningi við framboð Donald Trumps var lesins mörgum milljón sinnum, enda getur verið erfitt fyrir lesendur að átta sig á sannleiksgildi þess sem ritað er.

Cook sagðist ekki búa yfir lausn við vandamálinu um þessar mundir en er þess fullviss að hana mætti finna fljótt ef aðilar í tækniheiminum taka höndum saman. Þannig mætti finna leið til að aðgreina slíkar fréttir án þess að brjóta gegn málfrelsi og réttindum fjölmiðla.