Bandaríski verslunarrisinn Walmart ætlar að kafa ofan í saumana á því hvernig falsfréttatilkynning, sem tilkynnti um samstarf Walmart og rafmyntarinnar Litecoin, fór í loftið. Tilkynningin var birt á fréttatilkynningasíðunni GlobeNewswire, en mörg skráð félög á heimsvísu nota síðuna til að birta fréttatilkynningar og þar á meðal eru fyrirtæki sem skráð eru í Kauphöll Nasdaq á Íslandi. Reuters greinir frá.

Í kjölfar falsfréttatilkynningarinnar hækkaði gengi Litecoin um 30%. Í tilkynningunni stóð að Litecoin yrði með samstarfinu eina rafræna greiðslumiðlunin sem hægt yrði að greiða með í verslunum Walmart. Walmart var þó ekki lengi að bregðast við með því að senda út fréttatilkynningu þar sem greint var frá því að ofangreind tilkynning væru falsfréttir.

GlobeNewswire sendi einnig frá sér tilkynningu þar sem birting falsfréttatilkynningarinnar var hörmuð. Verkferlar verði endurskoðaðir til að koma í veg fyrir að álíka atvik komi upp síðar meir.