Carbon Iceland og Siemens Energy í Þýskalandi skrifa undir samkomulag um samstarf og tæknilega útfærslu á föngun CO 2 og framleiðslu eldsneytis á Bakka við Húsavík. Greint er frá samstarfinu í fréttatilkynningu.

Samkomulagið á milli Carbon Iceland og þýska fyrirtækisins Siemens Energy var undirrtiað að viðstöddum Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra iðnaðar- og nýsköpunar, Ingva Má Pálssyni skrifstofustjóra atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og fulltrúum úr framkvæmdastjórn Siemens Energy. Felur samkomulagið í sér tæknilegt samstarf við föngun á CO 2 og framleiðslu græns eldsneytis fyrir skip, flug og önnur samgöngutæki.

„Það er mikill styrkur og viðurkenning á Carbon Iceland-verkefninu að fá Siemens Energy í samstarf með tæknilegar útfærslur og þróun verkefnisins. Carbon Iceland áætlar að að fanga meira en milljón tonn af CO2 þegar starfsemi verður komin í fulla afkastagetu og að auki að framleiða loftslagsvænar vörur, bæði grænt eldsneyti og græna kolsýru til að stórauka matvælaframleiðslu í landinu,“ segir í fréttatilkynningu.