Það getur reynst erfitt að skila ekki myndböndum á réttum tíma. Það fékk kona nokkur í Suður-Karólínu að finna fyrir fyrir skömmu. Hún leigði myndina Monster-In-Law með söng- og leikkonunni Jennifer Lopez árið 2005 en trassað að skila henni. Lögregla handtók konuna á fimmtudag í síðustu viku og þurfti hún að gista eina nótt í fangaklefa.

Að því er fram kemur í umfjöllun vikuritsins Time eru málavextir þeir að konan átti erindi á lögreglustöð nokkra og það í öðrum erindum en að gefa sig fram vegna vanskila á myndbandsspólu. Þegar lögreglan fór að kanna mál konunnar uppgötvaðist að lýst hafði verið eftir henni vegna trassaskaparins og var svo komið að hún átti yfir höfði sér fangelsisdóm. Henni var daginn eftir sleppt gegn tvö þúsund dala tryggingu.

Blaðamenn Time segja að það hafa verið óþarfa að handtaka konuna. Það eitt að hafa séð Monster-In-Law fyrir níu árum ætti að vera næg refsing. Áhorfendur gáfu myndinni 5,4 í einkunn á vefnum Internet Movie Database og 16% á Rotten Tomatoes , sem er í lægri kantinum.