Stærsti fjárfestingalánasjóður Bandaríkjanna, Fannie Mae tilkynnti í gær að sjóðurinn komi til með að herða kröfur lánþega áður en lán verða veitt í framtíðinni.

Wall Street Journal greinir frá þessu á vef sínum og segir að hingað til hafi Fannie Mae litlar sem engar kröfur gert um lánþega. Nú verði hins vegar sett upp kerfi innan sjóðsins sem segi til um hversu líklegir tilvonandi lánþegar séu til að greiða lánin til baka og það á réttum tíma.

Þá verða tímamörk á lánshæfismati lengd en gert er ráð fyrir að þeir sem taki lán hjá sjóðnum eigi sér allavega fimm ára sögu á „hæfilegu“ lánshæfismati eins og segir í frétt WSJ.