Bandaríski fjárfestingalánasjóðurinn Fannie Mae tapaði um 29 milljörðum Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi þessa árs samanborið við tap upp á 1,4 milljarð dala á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá sjóðnum en þar kemur fram að mestan hluta tapsins má rekja til afskrifta og fjármagnstekjuliða en sjóðurinn þurfti að greiða rúman 21 milljarð dala í skatta á ársfjórðungnum.

Eins og áður hefur komið fram voru fjárfestingalánasjóðirnir Fannie Mae og Freddie Mac þjóðnýttir af bandarískum yfirvöldum í september síðastliðnum en sjóðirnir lána fé til banka og fjármálafyrirtækja sem síðan lána það til fasteignakaupa.

Í tilkynningu frá Fannie Mae kemur fram að sjóðurinn hafi lagt til hliðar 9,2 milljarða dali til að verjast miklu tapi en ljóst má þykja að það fjármagn dugar skammt, enda er tapið mun meira en gert hafði verið ráð fyrir.

Ónafngreindur viðmælandi Reuters fréttastofunnar segir augljóst að sjóðurinn sé kominn í þrot og auðveldast væri að loka honum.