Hlutabréf lækkuðu í Bandaríkjunum í dag en það voru helst bankar og fjármálastofnanir auk íbúðalánasjóða sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Nasdaq og S&P 500 vísitölurnar lækkuðum um 1,5% í dag en Dow Jones lækkaði um 1,6% í dag.

Orðrómur um mögulega þjóðnýtingu eða „björgun“ fjárfestingalánasjóðanna Freddie Mac og Fannie Mae hafði þannig verulega neikvæð áhrif á markaði vestanhafs í dag en sjóðirnir lækkuðu töluvert og hefur verðmæti þeirra ekki verið minna í hartnær tvo áratugi að sögn Bloomberg.

Fannie Mae lækkaði í dag um 22% og hefur ekki verið lægri frá því í maí 1989 á meðan Freddie Mac lækkaði um 25% og hefur ekki verið lægri frá því í janúar 1991. Rétt er þó að taka fram að sjóðirnir eru þess eðlis að geta hækkað og lækkað töluvert á einum degi eins og þekkt er nú orðið en þeir hafa tekið talsverðar dýfur í báðar áttir í um tvö ár.

Önnur fjármálafyrirtæki lækkuðu einnig nokkuð í dag. Þannig lækkaði fjárfestingabankinn Lehman Brothers um 7,1% eftir að Wall Street Journal birti skýrslu þar sem því er spáð að bankinn muni þurfa að auka hlutafé sitt um allt að 6 milljarða Bandaríkjadala á næstu misserum.

Þá lækkaði Bank of America um 4,6%, Citigroup um 5% og Morgan Stanley um 5,1% svo dæmi séu tekin.