Það er mat greinenda að fjárfestingasjóðirnir Fannie og Freddie Mac þurfi að afla hundrað milljarða bandaríkjadala til þess að borga upp tap á húsnæðismarkaði.

Frá þessu er greint á vef breska blaðsins Telegraph.

Sjóðirnir, sem eru þeir tveir stærstu á sínu sviði í Bandaríkjunum hafa tapað gríðarlega á veðlánum undanfarið. Orðrómur hefur verið um mögulega aðkomu ríkisins að björgun á sjóðunum. Þessi orðrómur um hugsanlega þjóðnýtingu hefur ollið enn frekari lækkunum á sjóðunum, nú síðast í dag.

Stjórnendur Fannie Mae segja þó að fyrirtækið hafi ekki beðið um hjálp frá ríkinu, né heldur hafi ríkið boðið fram aðstoð sína. Stjórnendur Freddie Mac eru þó sagðir hafa haldið á fund bandaríska fjármálaráðuneytisins í dag til þess að ræða slæma stöðu sjóðsins og hvort ríkið muni leggja fram aðstoð sína ef þess þykir þörf.

Sjóðirnir standa á bak við um 70% af fasteignalánamarkaðnum í Bandaríkjunum, það eru um 5000 milljarðar Bandaríkjadala.

Fannie og Freddie Mac hafa fallið gríðarlega á mörkuðum vestanhafs. Báðir sjóðirnir hafa fallið sem svara 80 prósent hvor.

Talið er að til þess að koma þeim á réttan kjöl þurfi sjóðirnir að afla á milli 40 og 100 milljarða Bandaríkjadala.