Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, fannst Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, taka því illa þegar hann var spurður út í stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Árni Páll sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi leit standa yfir að stefnunni og hafi kreist fram úr ráðherranum í síðustu viku að gera eigi atrennu að því að ná fram jöfnuði í ríkisfjármálum.

Bjarni svaraði því til að sér fyndist menn ansi borubrattir sem hafi lagt fram fjárlagafrumvörp ár eftir ár sem hafa ekki staðist. Ríkisstjórnin muni leggja áætlunina fram samhliða fjárlagafrumvarpi í haust.

„Ef menn eru að kalla eftir því hvaða fyrirmæli verða gefin inn í ráðuneytin þá eru það þau að gerð verður hagræðingarkrafa fyrir ráðuneytin fyrir almennan rekstur,“ sagði Bjarni.

„Ráðherra má ekki verða svona önugur þegar hann er spurður út í þetta. Það er eðlilegt að við spyrjum,“ sagði Árni Páll og fullyrti að í maí árs hvert var ætíð vitað eftir hverju var verið að vinna.

Eins og vb.is greindi frá í morgun hefur Steingrímur J. Sigfússon farið fram á sérstakar umræður í dag um áherslur ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.