Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu -og þjónustusviðs Icelandair Group hefur setið í framkvæmdastjórn félagsins frá byrjun árs 2018. Hún gegndi fyrst stöðu framkvæmdastjóra stefnumótunnar og viðskiptaþróunar en  tók við núverandi stöðu í febrúar á þessu ári. Áður en Birna gekk til liðs við Icelandair hafði hún verið framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar í tæpt ár. Lengst af starfaði hún hjá Símanum eða frá árinu 2001 en hún sat í framkvæmdastjórn félagsins frá árinu 2011, síðast sem framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs.

Spurð hvernig það hafi komið til að hún fór yfir til Icelandair segir Birna að Björgólfur Jóhannsson, þáverandi forstjóri félagsins, hafi haft samband við sig og boðið henni hlutverk framkvæmdastjóra stefnumótunar og viðskiptaþróunar. „Mér fannst þetta áhugaverð áskorun en það sem við fyrstu sýn leit út fyrir að vera fyrst og fremst ákveðið umbótaverkefni breyttist fljótt í suðupott spennandi verkefna sem sneru líka meðal annars að leiðakerfinu og þróun stafrænu einingar félagsins,“ segir Birna.

„Á þessum tíma var kominn tími á að vinna nýja stefnu en félagið hafði náð frábærum árangri í að ná markmiðum sínum samkvæmt stefnu sem sett var 2012 um að gera Ísland að vinsælum heilsársáfangastað og mikilvægri tengimiðstöð milli Evrópu og Norður-Ameríku. Hvort tveggja gekk eftir en það var ljóst að félagið þurfti að horfa lengra. Mér fannst spennandi að koma inn í hóp sem augljóslega var tilbúinn í breytingar og að taka félagið á næsta stig. Félagið hafði vaxið hratt og þurfti að hafa fyrir því að mæta þeirri miklu eftirspurn sem hafði aukast svakalega frá árinu 2010.

Í svona örum vexti gefst oft ekki tækifæri til að aðlaga innviðina nógu hratt eins og við þekkjum til dæmis í íslenskri ferðaþjónustu. Það var því mikið verkefni fyrir höndum og tækifæri til að endurmeta stöðuna, móta nýja, skýra stefnu til framtíðar og styrkja innviði félagsins. Þetta eru þau mikilvægu verkefni sem við höfum tekist á við samhliða öðrum áskorunum. Við erum að undirbúa félagið til framtíðar, ekki bara til að takast á við frekari vöxt heldur leiða sjálfbæran vöxt til frambúðar.“

Fóru aðra leið en lagt var upp með

Að sögn Birnu fólust fyrstu verkefnin eftir hún kom inn til Icelandair í að byrja á að kortleggja stöðuna sem félagið var í og skilja upplifun stjórnenda og starfsfólks. Það hafi leitt til þess að farin var töluvert önnur leið við stefnumótun en lagt var upp með í upphafi.

„Þegar maður fer í stefnumótun þá verður maður fyrst að skilja stöðuna sem fyrirtækið er í. Árið 2012 var stefnumótun félagsins unnin í samstarfi við ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group. Það var frábær vinna sem kom mjög vel út fyrir félagið og skilaði tilsettum árangri. Það sem ég fann hins vegar þegar ég hóf að ræða við lykilstjórnendur og starfsmenn var að það var komið töluvert bil á milli stjórnenda og starfsfólks annars vegar og á milli stefnunnar og fólksins í fyrirtækinu hins vegar.

Mín niðurstaða var því sú að við þyrftum að gera meira sjálf og fara einu skrefi lengra en við ætluðum. Við lögðum því áherslu á að vinna stefnuna  hér innanhúss með okkar starfsfólki, á okkar eigin tíma og kröftum og ég sótti svo  utanaðkomandi ráðgjöf þegar hana þurfti. Við fórum í ítarlega greiningu, bæði á fyrirtækinu sjálfu og markaðnum. Þá héldum við yfir 50 vinnustofur í fyrirtækinu þar sem við fengum mjög skýr og góð skilaboð frá starfsfólki sem var mjög dýrmætt og nýttist vel.

Þessi vinna skilaði framkvæmdastjórninni, stjórn og starfsfólki félagsins góða yfirsýn og betri skilningi á stöðunni. Það sem við sáum í þeim innri og ytri greiningum og gögnum sem við nýttum voru þær gríðarlegu breytingar sem höfðu orðið í ytra umhverfinu á meðan Icelandair var nær ekkert búið að breytast.

Síðasta sumar lá stefnan svo fyrir. Þá vorum við komin með skýra mynd og vissum hvert við ætlum að fara og hvernig við nýtum okkar sérstöðu. Við ætlum aftur í ræturnar og einbeita okkur að því sem við erum best í  flugrekstri. Þá má ekki gleyma því að Icelandair var búið til af frumkvöðlum fyrir 80 árum sem voru stórhuga, lausnamiðaðir og með mikla ástríðu fyrir viðskiptavininum. Það var gaman að finna nákvæmlega þennan anda á meðal starfsfólksins þegar ég hóf störf hjá fyrirtækinu. Við erum stolt af því hver við erum, hvaðan við komum, hvar við störfum í dag og hvert félagið stefnir.“

Nánar er rætt við Birnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .