Blönduð leið verður farin við lausn aflandskrónuvandans með útgáfu skuldabréfa í erlendri mynt og með því að færa kvikar eignir í langtímaeignir. Áætlunin verður útfærð í skrefum en þau hafa ekki verið tímasett. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu sem kveðst hafa öruggar heimildir fyrir þessu.

Þar kemur fram að ganga eigi hratt á aflandskrónur frá og með miðju þessu ári, en fjárhæð þeirra nemur nú tæpum 300 milljörðum króna.

„Það er ekki langt síðan við kynntum til sögunnar aðgerðir sem snúa sérstaklega að snjóhengjunni, aflandskrónum utan slitabúa, og ég vonast til þess að við getum farið í útboð og boðið fjárfestingarkosti fyrir þá krónueigendur á fyrri hluta þessa árs,“ segir Bjarni í samtali við Morgunblaðið.

Þá hefur Bjarni boðað frumvarp um stöðugleikaskatt á slitabúin, en hann segir að bíða verði þess að frumvarpið komi fram að ræða hve breiður skattstofninn verður eða hvernig hann verður útfærður. Sú vinna sé á lokametrunum.

Hann segir vel geta verið að grípa þurfi til aðgerða sem ekki verði óumdeildar, en það sé í hans huga betra en óbreytt ástand.