*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 4. júlí 2021 16:06

Fara ekki fram á eftirgjöf skulda

Lengt verður í skuldum, fasteign verður seld og fækkað í bílaflota Allrahanda GL ehf. fáist frumvarp að nauðasamningi samþykkt.

Jóhann Óli Eiðsson
Árni Sæberg

Lengt verður í skuldum, fasteign verður seld og fækkað í bílaflota Allrahanda GL ehf. fáist frumvarp félagsins að nauðasamningi samþykkt af héraðsdómi. Fáist samningurinn samþykktur er það mat stjórnenda, gangi áætlanir eftir, að hlutfall skulda af EBITDA verði 1,3 við efndir samningsins. Þetta kemur fram í skjölum sem stafa frá félaginu og umsjónarmanni þess í greiðsluskjóli.

Allrahanda, sem starfar í hópferðageiranum, er eitt þeirra félaga sem urðu einkar illa fyrir barðinu á afleiðingum farsóttarinnar en þó má færa rök fyrir því að hallað hafi undan fæti áður. Rekstrarárið 2019 námu tekjur þess tæplega 2.171 milljón króna, gjöld voru 2.555 milljónir og tap eftir skatt 404 milljónir. Í fyrra námu tekjur 807 milljónum, þar af voru tekjur af hefðbundinni starfsemi 592 milljónir og afgangurinn að mestu styrkir úr ríkissjóði, færðir í rekstrarreikning, en gjöld 1.033 milljónum. Tapið var 699 milljónir.

Eignir í ársbyrjun 2021 námu 1.825 milljónum en þar af voru veltufjármunir ekki nema 88 milljónir. Fasteignin að Klettagörðum 4 var færð til bókar á 800 milljónir, krafa á tengda aðila nam 65 milljónum, tekjuskattsinneign var 68 milljónir og þá var 73% hlutur í Hveradölum ehf. metinn á 160 milljónir. Það félag hefur ekki skilað ársreikningi fyrir 2020 en tekjur þess árið 2019 námu 30 milljónum og átti félagið fasteign sem metin var á 357 milljónir.  Langtímaskuldir námu 960 milljónum króna og skammtímaskuldir 1.107 milljónum. Eigið fé í upphafi árs var neikvætt um tæplega 242 milljónir og hefur þá verið tekið tillit til 277 milljóna króna víkjandi láns.

Skuldar rúman milljarð eftir skjól

Í júní í fyrra fékk félagið heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar, samkvæmt lögum sem um efnið gilda, en sú heimild getur gilt að hámarki í eitt ár. Samkvæmt drögum að nauðasamningi munu dráttarvextir og innheimtukostnaður falla niður og samningsvextir koma í þeirra stað. Gjalddagi samningskrafna verður síðan færður aftur um þrjú ár, eða til ársins júní 2024. Hið sama mun gilda um kröfur tryggðar með veði í fasteignum eða bílum. Ekki er því um eftirgjöf skulda að ræða. Samkvæmt frumvarpinu munu almennar kröfur nema 340 milljónum króna þegar greiðslufresti þess lýkur. Heildarfjárhæð veðtryggðra skulda verður ríflega 710 milljónir króna.

„Mun félagið verða vel í stakk búið að takast á við þá stöðu miðað við áætlaða rekstrarafkomu félagsins út frá því að ferðamannafjöldi í versta falli standi í stað eftir árið 2024,“ segir í frumvarpinu. Samkvæmt skjölunum fer bókunarstaða félagsins batnandi og eru bókanir fyrir tímabilið nóvember 2021 til febrúar 2022 á pari við júní 2019 til febrúar 2020 að mati umsjónarmanns þess.

Samþykki kröfuhafa ekki áskilið

Mál Allrahanda er áhugavert fyrir þær sakir að það er fyrsta félagið sem lýkur veru í Covid-greiðsluskjóli frá því að lög voru sett um efnið, en nýting úrræðisins reyndist nokkuð umfangsminni en svartsýnustu spár höfðu gert ráð fyrir. Frumvarp félagsins felur í sér „einfaldari gerð nauðasamnings“, en til að slíkur samningur komist á þarf eingöngu samþykki umsjónarmanns í greiðsluskjóli og síðan staðfestingu héraðsdóms. Með öðrum orðum þurfa kröfuhafar ekki að greiða atkvæði um og samþykkja nauðasamninginn til að hann teljist gildur, eins og vant er. Þeir geta aftur á móti komið athugasemdum á framfæri fyrir dómi þegar að staðfestingu nauðasamningsins kemur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.