Erlendir aðilar fengu rúmlega 20 milljarða króna í vexti í fyrra og á fyrri helmingi ársins í ár. Þeir fóru með tæplega tvo þriðju af upphæðinni út á gjaldeyrismarkað.

Í Markaðspunktum Arion banka  segir að þessum aðilum liggi greinilega ekki mikið á að komast út úr landinu með vextina og leiti því aftur með upphæðirnar í innlenda ávöxtun. Greining Arion banka segir að samkvæmt sínum útreikningum hafi erlendir aðilar fengið um 21,5 milljarð króna í vaxtagreiðslur og verðbætur af ríkisbréfum, ríkisvíxlum og íbúðabréfum.

Greiningadeild Arion banka vísar í nýlegar upplýsingar frá Seðlabanka Íslands sem sýnir að erlendir aðilar fóru með um tæpa 8 milljarða króna á gjaldeyrismarkað á árinu 2012. Þá fóru erlendir aðilar með um 5,7 milljarða króna úr landinu á fyrri hluta ársins í ár. Samtals fóru þeir með tæplega 14 milljarðar á gjaldeyrismarkað af þeim 21,5 milljarða króna vöxtum sem féllu þeim í skaut.