Félagið BBLIII ehf. gaf út skuldabréf upp á 141 milljón krónur fyrr í mánuðinum í tengslum við kaup þess á tæplega 10% hlut í Auði Capital. Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í síðustu viku keypti hópurinn hlutinn af Höllu Tómasdóttur sem átti 15% í Auði Capital. Í fjárfestahópnum eru m.a. Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri breska bankans Kaupthing Singer & Friedlander, banka í eigu Kaupþings í Bretlandi, Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, Guðjón Reynisson, forstjóri leikfangaverslunarinnar Hamleys, og Bretinn Ian Stewart.

Fram kemur hjá Verðbréfaskráningu að skuldabréfið var gefið út 12. júní síðastliðinn. Það er til tíu ára og vaxtalaust. Höfuðstól skuli greiðast með einni greiðslu á gjalddaga árið 2023. Auður Capital annaðist útgáfulýsingu skuldabréfsins .

Ármann leiðir fjárfestahópinn. Hann segir í svari við fyrirspurn vb.is fjárfestana í félaginu leggja fram megnið af peningunum til kaupa á hlutnum í formi hluthafaláns. „Vegna þess að sumir fara í gegnum fjárfestingarleiðina, þá er þetta gert með því að gefa út skuldabréf,“ segir hann.