Obama hjónin og framleiðslufyrirtækið þeirra Higher Ground hafa undirritað samning við Audible, hljóðbókar- og hlaðvarpsþjónustu á vegum Amazon, um útgáfu efnis á veitunni. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg. Samningurinn bindur enda á þriggja ára samband Obama hjónanna við Spotify.

Skilmálar samningsins hafa ekki verið gefnir upp opinberlega, til dæmis hvort samningurinn gefi Higher Ground sveigjanleika til að gefa út þætti á mörgum veitum á sama tíma.

„Við hjá Higher Ground höfum alltaf viljað gefa fleirum rödd. Audible mun hjálpa okkur að ná því markmiði,“ sagði Barack Obama, fyrrum forseti Bandaríkjanna í tilkynningu.

Obama fjölskyldan undirritaði sinn fyrsta hlaðvarpssamning við Spotify árið 2019 og gaf í kjölfarið út ýmsa þætti. Þar má nefna „The Michelle Obama Podcast“ og „Renegades: Born in the USA“ þar sem tónlistarmaðurinn Bruce Springsteen og fyrrum forsetinn Barack Obama spjalla í margar klukkustundir.