Rekstrarfélag Nýja Kaupþings banka (vegna sjóðanna Kaupthing ÍS-5, Kaupþing ÍS-15 og ICEQ verðbréfasjóðs), Gildi lífeyrissjóður, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir lífeyrissjóður óskuðu í gær eftir því að boðað yrði til hluthafafundar í Alfesca.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar en sem kunnugt er liggur nú fyrir yfirtökutilboð Lor Berri Iceland ehf. í alla hluti félagsins en framangreindir aðilar eru eigendur að 679.756.524 hlutum í Alfesca eða 11,57% hlutafjár.

Í tilkynningunni kemur fram að óskað er eftir því að á fundinum verði tekið til umfjöllunar yfirtökutilboð Lur Berri til hluthafa félagsins, fyrirhuguð afskráning félagsins og matsgerðir um verðmæti hlutabréfa þess.

Þá Hefur fjármálaeftirlitið í kjölfarið ákveðið að framlengja gildistíma yfirtökutilboðs Lur Berri um 18 daga frá og með 30. júlí 2009 eða til kl. 16:00 þann 17. ágúst 2009,

Í samræmi við lög um hlutafélög og samþykktir Alfesca mun stjórn félagsins boða til hluthafafundar innan 14 daga. Nánari upplýsingar um fundardag, fundartíma og fundarstað hluthafafundar verða birtar innan skamms.