Félag atvinnurekenda, FA, hefur sent erindi til heilbrigðisráðuneytisins þar sem samtökin draga í efa að stoð sé í sóttvarnarlögum fyrir því að banna eða takmarka sölu og notkun á skyndigreiningarprófum eða sjálfsprófum vegna Covid-19 veirunnar. FA krefst skýrra svara frá ráðuneytinu um afstöðu þess til lögmætis sölu og notkunar á skyndigreiningarprófum.

Í tilkynningu FA segir að lyfjabúðir hafi ekki fengið svör frá heilbrigðisráðuneytinu um hvort heimilt sé að selja skyndigreiningarprófin. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að fyrirtækið hafi sent beiðni í maí um að selja skyndiprófin í verslunum og að fyrirspurnin hafi verið ítrekuð í byrjun þessa mánðar.

Umrædd próf gera einstaklingum kleift að kanna sjálfir hvort þeir séu smitaðir af kórónuveirunni. Sigríður Margrét lýsti sjálfsprófunum sem smitvörn og nefndi sem dæmi einstaklinga sem vilja kanna hvort þeir séu smitaðir áður en þeir fara á fjölmenna staði eða hitta fólk í áhættuhópum. Hún tók þó fram að prófin væru ekki ætluð einstaklingum með einkenni, þeir eiga að fara beint í PCR-próf.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun að niðurstöður sjálfsprófanna séu ekki nægilega áreiðanlegar. Hann vill fremur sjá fólk styðjast við PCR-prófin, sem séu „langbestu prófin“. Hinn valkosturinn væri hraðgreiningarpróf sem tekin eru á staðlaðan máta.

Fram kemur á vef FA að innflytjendur skyndigreiningarprófa hafa fengið leyfi fyrir sölu þeirra, en heilbrigðisráðuneytið hefur sett það skilyrði að prófin séu notuð undir eftirliti og á ábyrgð rannsóknarstofu með starfsleyfi á grundvelli reglugerðar nr. 415/2004.

Í bréfi samtakanna til heilbrigðisráðuneytisins er rifjað upp að atvinnufrelsi og athafnafrelsi fyrirtækja og einstaklinga sé veitt rík vörn í stjórnarskránni.

„Í þeirri vörn felst m.a. að þetta frelsi verði ekki skert nema með skýrum ákvæðum í settum lögum sem auk þess verða að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum. Í ljósi þessa er ljóst að bann við innflutningi, sölu og notkun skyndigreiningarprófa fyrir COVID-19 verður að byggja á ákvæðum settra laga þar sem skýrlega er mælt fyrir um þá frelsistakmörkun sem til stendur að framfylgja. Þarna dugar ekki til að settar séu reglugerðir eða birtar séu auglýsingar án þess að fyrir þeim sé skýr efnisleg og sértæk lagastoð sem tekur til þeirrar takmörkunar sem hin lægra setta réttarheimild mælir fyrir um,“ segir í bréfi undirrituðu af Guðnýju Hjaltadóttur, lögfræðingi FA.

FA spyr m.a. hvort auglýsing 150/2021, sem inniheldur ákvæði um skyndigreiningarpróf, bindi aðra en heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn. Jafnframt er spurt hvort ráðuneytið telji að skilyrði áðurnefndrar reglugerðar, um að próf megi aðeins gera undir eftirliti rannsóknarstofu með starfsleyfi, eigi sér stoð í sóttvarnalögum.

Þá spyrja samtökin hvort ráðuneytið telji að í gildi sé bann við því að einstaklingar noti skyndigreiningarpróf við Covid, ef það er ekki gert undir eftirliti og á ábyrgð rannsóknastofu. „Ef svo, á hvaða lagagrunni, sem lýst er að ofan, byggir sú takmörkun á athafnafrelsi einstaklinga?“ segir í bréfi félagsins.

Loks er spurt: „Telur ráðuneytið að óheimilt sé að selja slík skyndigreiningarpróf til almennings, t.d. í verslunum og lyfjabúðum?“