Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að nú sé að renna upp sá tími sem stjórnvöld geti farið í „stóra og mikla hreingerningu“ á skuldahlið ríkissjóðs. Þetta segir hann í samtali við Morgunblaðið .

Hann segir að fjárlagafrumvarpið verði lagt fram með ágætum afgangi. Bendir hann á að nú sé sú staða komin upp, sem tengist afnámi gjaldeyrishafta, að hægt verði að gera upp öll lán sem tengdust áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og menn standi líka frammi fyrir þeim vanda hvað varðar íslensku krónulánin, að geta valdið of miklum þensluáhrifum með því að borga of mikið af þeim upp.

„Við erum í raun og veru með of mikla endurgreiðslugetu hvað snertir krónuhlutann af skuldunum. Það þarf hreinlega að stíga varlega til jarðar í því hvernig við ráðstöfum þeim fjármunum sem verða til skiptanna,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.