Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur höfðað mál á hendur Lánasjóði sveitarfélaga vegna 800 milljóna króna gengisláns í evrum og dollurum sem sveitarfélagið tók hjá sjóðnum árið 2006. Bæjarstjórn Fjarðarbyggðar vill láta reyna á réttarstöðu sína enda hefur lánið stökkbreyst, að því er fram kemur á vef fréttablaðsins Austurgluggans . Þetta er annað gengislánamálið sem sjóðnum er stefnt út af en sveitarfélagið Skagafjörður stefndi sjóðnum í fyrravor vegna svipaðs máls. Fleiri sveitarfélög og stofnanir sveitarfélaga hafa sömuleiðis skoðað stöðu sína gagnvart sjóðnum.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðarbyggðar, segir í samtali við blaðið bæjarstjórnina hafa átt í góðum samskiptum við lánasjóðinn vegna málsins.

Ekki náðist í Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóra Lánasjóðs sveitarfélaga, vegna málsins.