Vilhjálmur Bjarnason, lektor við Háskóla Íslands og fyrrverandi hluthafi í Landsbankanum, hefur farið fram á að 17 fyrrverandi eigendur og starfsmenn Landsbankans beri vitni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna skaðabótamáls sem 350 fyrrverandi hluthafar íhuga að höfða. Þetta kemur fram í DV í dag.

Beiðnin um skýrslutökurnar var lögð fram á föstudag og er það lögmaðurinn Jóhannes Bjarni Björnsson sem skrifar beiðnina fyrir hönd Vilhjálms. Í meginatriðum snýst málið um það hvort Björgólfur hafi falið eignarhald sitt í bankanum með því að láta undirmenn sína fara með hluti, m.a. í gegnum félögin Hersir og Valhamar Group þannig að eignarhlutur hans fór ekki yfir 20%.

Einnig kemur fram í beiðninni að Björgólfur og fyrrverandi starfsmenn bankans hafi átt að hafa blekkt eftirlitsaðila með því að tengja ekki saman félög sem hann átti. Þannig hafi bankinn til að mynda metið stórar áhættuskuldbindingar Björgólfs um 33 milljarða en samkvæmt mati Fjármálaeftirlitsins voru þær um 51 milljarður króna.

Í beiðninni segir samkvæmt frétt DV að ef upplýsingar um raunverulegt eignarhald Björgólfs og umfang lánveitinga bankans til hans hefðu legið fyrir þá sé ólíklegt að fjárfestar hefðu keypt hlutabréf í bankanum.

Meðal annars er farið fram á að Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi aðaleigendur beri vitni til viðbótar við þá Kjartan Gunnarsson, Sigurjón Árnason, Halldór J. Kristjánsson, Andra sveinsson, Birgir Már Ragnarsson, Þór Kristjánsson, Gunnar Valdimarsson, Ársæl Hafsteinsson,Vignir Rafn Gíslason, Tómas Ottó Hansen, Sigþór Sigmarsson, Vífill Harðarson, Þórður Örlygsson, Haukur Þór Haraldsson og Sigurbjörn Guðbjörn Geirsson.