Tvö fylki í Bandaríkjunum, Nebraska og Oklahoma, hafa ákveðið að fara í mál við þriðja fylkið, Colorado, fyrir að lögleiða neyslu kannabiss á umráðasvæði sínu. BBC News greinir frá málinu.

Fylkin tvö segja lögin ganga gegn alríkislögum í Bandaríkjunum og krefjast þess að þau verði dæmd ógild. Fleiri fylki í Bandaríkjunum hafa gert neyslu kannabiss löglega, en ástæðan fyrir því að fylkin tvö fara einungis í mál við Colorado er sú að það deilir með þeim landamærum.

Stjórnvöld í Nebraska og Oklahoma hafa áður kvartað yfir því að kannabis, sem ræktað sé í Colorado, berist í miklum mæli yfir landamærin. John Suthers, sem fer með hagsmuni Colorado í málinu, kveðst því hafa búist við málsókn af þeirra hálfu vegna laganna.

Íbúar Colorado samþykktu í atkvæðagreiðslu árið 2012 að gera neyslu kannabisefna löglega í fylkinu. Fyrr á þessu ári varð fylkið svo það fyrsta í Bandaríkjunum til þess að gera neysluna löglega meðal almennings.

Nú þegar hafa stjórnvöld í Colorado fengið 7 milljónir dala í skatttekjur vegna lögleiðingarinnar, og er sala kannabis því strax orðin mikilvægur skattstofn fyrir fylkið.