Sjóðstýringarfélagið Gamma, í eigu Kviku banka, hefur ráðið ráðgjafafyrirtækið Grant Thornton til að gera ítarlega greiingu á öllum greiðslum af bankareikningum fasteignafélagsins Upphafs og dótturfélaga þess, ásamt sjóðnum Novus sem er eigandi félagsins, allt frá upphafi starfseminnar.

Kom þetta fram á upplýsingafundi með sjóðfélögum Novus í síðustu viku að því er Fréttablaðið segir frá. Er ætlunin að sannreyna réttmæti greiðslanna frá Upphafi og samkeyra þær við samninga fasteignafélagsins við verktaka, ráðgjafa og aðra sem komið hafa að verkefnum fasteignafélagsins.

Niðurstaða úttektarinnar á að liggja fyrir á árinu, en sjóðfélagar í Novus, sem er í stýringu Gamma, lögðu áherslu á að ráðast í hana vegna gruns um að mögulega hefði ekki verið eðlilega staðið að greiðslum, og á að kanna í því samhengi þátt endurskoðandans sem skrifaði upp á reikninga Novus.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um þurfti að færa niður verðmæti félagsins úr hátt í 4 milljörðum í byrjun sumars niður í 42 milljónir í lok þess, vegna hægagangs við framvindu verkefna og og ofmetins kostnaðar.

Var ákveðið í framhaldinu að ráðast í útgáfu milljarðs króna forgangsskuldabréfs til tveggja ára, og sölutryggir Kvika banki hálfan milljarð af því, en á móti leggja helstu skuldabréfaeigendur Upphafs fram sömu upphæð, en þeir fái forgang á greiðslu höfuðstóls síns.