Í ár fagnar Bílabúð Benna fjörutíu ára starfsafmæli en það var stofnað af Benedikt Eyjólfssyni árið 1975. Auk þess að vera umboðsaðili fyrir Opel, Porsche, Chevrolet og SsangYong bíla flytur fyrirtækið inn og selur vara- og fylgihluti í allar tegundir bifreiða.

„Alla tíð höfum við lagt áherslu á varfærni í okkar rekstri og því ekki tekið mikla áhættu,“ segir Benedikt Eyjólfsson, forstjóri Bílabúðarinnar.

„Samt sem áður höfum við oft farið ótroðnar slóðir og reynt hluti sem aðrir voru ekki að gera sem oft á tíðum lukkuðust vel. Við tókum þátt í að ryðja brautina í jeppabreytingum hér á landi og upp frá því rákum við öfluga varahlutaverslun og breytingaverkstæði. Árið 1996 urðum við umboðsaðili SsangYong sem framleiddi þá Musso-jeppann, en hann hitti algerlega í mark hjá Íslendingum,“ segir Benni.

Þremur árum síðar hóf fyrirtækið innflutning á Porsche bifreiðum en á þeim tíma framleiddi Porsche aðeins sportbíla og var því lítill markaður fyrir slíka bíla á Íslandi.

„Fljótlega hófu þeir svo þróun á Cayennejeppanum sem þeir kynntu árið 2003 sem hefur verið gríðarlega vinsæll alla tíð. Á síðasta ári kynntu þeir svo Macansem er aðeins minni en Cayenne og hefur hann einnig hitt í mark. Árið 2004 tókum við svo við Chevrolet- umboðinu og á síðasta ári bættist Opel í hópinn. Í dag erum við því með umboð fyrir fjórar tegundir bifreiða, Opel, Porsche, Chevrolet og SsangYong. Á þessum árum hefur okkur tekist að eignast fjölmarga trygga viðskiptavini sem við reynum að þjónusta á sem bestan hátt,“ segir Benedikt.

Nánar er spjallað við Benna í sérblaði Viðskiptablaðsins um framúrskarandi fyrirtæki sem unnið var í samstarfi Creditinfo. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .