Undanfarin ár hafa einkennst af miklum og hröðum vexti í ferða- þjónustu. Nú virðast teikn á lofti, sem benda til að hægt hefur á þeim vexti.

Í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um gistinætur á hótelum, kemur fram að gistinætur erlendra ferðamanna í júnímánuði hafi verið 369 þúsund talsins sem er 8,1% aukning miðað við sama mánuð árið 2016.

Hagstofan rýnir enn nánar í það hvar ferðamennirnir gista en stofnunin bendir sérstaklega á að fjöldi gistinátta á Vesturlandi og Vestfjörðum annars vegar og Austurlandi hins vegar, hafi dregist saman. Í báðum tilvikum er 3% samdráttur frá fyrra ári þegar litið er til gistinátta allra gesta – en ekki einungis hjá erlendum gestum.

Það vakti sérstaka eftirtekt, að samkvæmt talningu Hagstofunnar hefur dregið umtalsvert úr fjölgun gistinátta á heilsárshótelum hér á landi á síðustu tveimur mánuðum, í maí og júní. Í greiningu Hagfræðideildar Landsbankans er bent á að aukningin á milli ára hafi verið 6,1% í maí á 12 mánaða grundvelli og 8,1% í júní frá sömu mánuðum í fyrra. Það þarf að leita allt aftur til júnímánaðar 2014 til að finna minni fjölgun.

Samdráttur um 9%

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans, bendir á að vegna meiri fjölgunar erlendra ferðamanna en sem nemur fjölgun gistinátta hefur gistináttafjöldinn á hvern ferðamann dregist talsvert saman. Fjöldi gistinátta á hvern ferðamann nam 1,7 í júní og dróst saman um ríflega 9% frá sama tímabili í fyrra.

„Gistinætur á mann hafa verið að dragast saman núna fjórtán mánuði í röð. Meðaltal gistinátta hefur verið talsvert lægra á fyrstu sex mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra,“ segir Gústaf. Þegar hann er spurður út í hvað gæti mögulega skýrt þessa þróun vísar hann til þess að það sem hefur einna mest áhrif er verðþró- unin á gistingu í erlendri mynt en verðið á fyrstu sex mánuðum ársins er þriðjungi hærra en á sama tíma í fyrra mælt í erlendri mynt og 62% hærra en á sama tímabili árið 2015.

Hagfræðingurinn útskýrir að ferðamenn hafi mætt styrkingu krónunnar með því að draga úr dvalarlengd í stað þess að hætta við að koma til landsins. „Við höfum mjög lítið séð áhrif sterkari krónu á komur ferðamanna. Það var metvöxtur í komu ferðamanna í fyrra, á sama tíma og metstyrking var á krónunni. Ferðamenn breyttu frekar neyslumynstrinu. Þeir reyna að draga úr neyslu og dvelja skemur. Þegar dvalalengdin styttist þá gefur það minna svigrúm til þess að fara út á land. Því lengur sem þú þarft að fara frá höfuðborgarsvæð- inu, þeim mun lengur þarftu að dvelja að öllu óbreyttu,“ bætir Gústaf við. Er þessi athugasemd hagfræðingsins í takt við nýjustu tölur Hagstofunnar þar sem talsvert minni aukning er á gistinóttum á hótelum á Vestfjörðum, á Vesturlandi og á Austurlandi, allt landsvæðum sem eru mjög langt frá höfuðborginni og Keflavíkurflugvelli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .