Það sem af er ári hafa 43 leitað sér lækninga í Evrópu á grundvelli Evróputilskipunar sem leyfa sjúklingum að sækja heilbrigðisþjónustu til annarra aðildarríkja EEs ef biðtími eftir þjónustu hefur dregist úr hófi í heimalandinu.

Er þetta mikil fjölgun frá árinu 2017 þegar samtals fóru 14 til Evrópu að því er RÚV greinir frá. Reglugerðin tók gildi í júní 2016 en það ár nýttu sér 11 heimildina, en hún felur í sér að sjúklingar eiga rétt á að fá endurgreiddan útlagðan kostnað sem samsvari kostnaði við aðgerðina hér á landi.

Flestir sem nýttu sér úrræðið bæði árið 2016 og 2017 voru að sækja eftir sérfræðiþjónustu og fóru til Englands, en nú eru flestir ellilífeyrisþegar sem fara til tannlækninga. Er þá helst um að ræða Spán, Ungverjaland og Pólland, en einnig er verið að sækja í blóðskilun, bótox vegna mígrenis sem og sérfræðiþjónustu líkt og áður.

Landlæknir setur viðmiðunarmörk eftir heilbrigðisþjónustu sem miðast við að ef fólk hefur beðið í meira en 30 daga eftir skoðun hjá sérfræðingi getur það sótt hana erlendis. Ef fólk hefur svo beðið í meira en 90 daga eftir aðgerð eða meðferð frá því að greining fékkst gildir það sama.