Nigel Farage, formaður Brexit flokksins í Bretlandi, hefur gefið út að flokkurinn muni ekki bjóða fram í þeim 317 kjördæmum þar sem Íhaldsflokkurinn fór með sigur í síðustu þingkosningum. Financial Times greinir frá þessu og segir yfirlýsingu Farage styrkja Boris Johnson, formanns Íhaldsflokksins, fyrir þingkosningarnar þann 12. desember næstkomandi.

Brexit flokkurinn stefnir hins vegar á að fara gegn þingmönnum allra annarra flokka en Farage sagði það forgangsatriði flokksins að velta þingmönnum Verkamannaflokksins úr sessi.

Brexit flokkurinn var stofnaðu í apríl síðasta vor og á því engan fulltrúa á breska þinginu. Hins vegar fór flokkurinn með sigur úr býtum í Evrópukosningunum í maí.

Boris Johnson fagnaði ákvörðun Farage og sagði hana til marks um að Íhaldsflokkurinn væri eini flokkurinn sem gæti klárað samningana um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Leiðtogi Verkamannaflokksins Jeremy Corbyn sagði að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefði fengið ósk sína uppfyllta þegar Farage tilkynnti ákvörðun flokksins. Brexit flokkurinn væri með þessu að bjóða fram Trump-fylkingu sem myndi leiðar til nýfrjálshyggju að hætti Tahtcers nema á sterum.

Ed Davey, formaður frjálslyndra demókrata, sagði ákvörðun Farage sýna svart á hvítu að Íhaldsflokkurinn og Brexit flokkurinn væru í raun ein og sami flokkurinn.