Nigel Farage, fyrrum formaður breska Sjálfstæðisflokksins (UKIP), segir að hann sé kominn á þá skoðun að það ætti að kjósa aftur um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Bloomberg greinir frá.

Ástæðuna segir hann vera þá að hann vilji afgreiða málið með afgerandi hætti og þagga niður í röddunum sem hvetja til þess að hætt verði við Brexit.

„Prósentan sem myndi kjósa með úrsögn yrði mun hærri en síðast,“ er haft eftir Farage sem telur að slík atkvæðagreiðsla myndi einnig þagga niður í Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, sem hefur barist gegn Brexit.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, hefur hins vegar ekki tekið vel í hugmyndina um aðra atkvæðagreiðslu og kallað það svik við meirihluta þjóðarinnar sem kaus með útgöngu.