Tilkoma hins nýja afbrigðis kórónuveirunnar, ómíkrón, hefur markað kaflaskil í faraldrinum. Nú sem aldrei fyrr eru skiptar skoðanir á því hvernig haga eigi viðureigninni við veiruna, allt frá ákalli um enn harðari takmarkanir í að afnema þær með öllu.

Í grundvallaratriðum skilur ómíkrón-afbrigðið sig frá fyrri afbrigðum með mildari sjúkdómseinkennum og hraðari útbreiðslu smita. Virðist veiran heldur dvelja í nefi og hálsi en síður herja á neðri öndunarfæri. Þessi eiginleiki hennar dregur úr líkum á alvarlegum veikindum en eykur á sama tíma hæfni hennar til að dreifa sér, minna magn veiru þarf til að smita og meðgöngutími veirunnar er styttri, sem leiðir af sér að einstaklingur verði fyrr smitandi eftir útsetningu. Ómíkrónafbrigðið virðist jafnframt eiga greiðari leið fram hjá bólusetningu og fyrri sýkingu, sem þó virðast enn veita vörn gegn alvarlegum veikindum.

Skemmri meðgöngutími veirunnar gerir erfiðar um vik að beita smitrakningu og sóttkví til að hindra útbreiðslu, þar sem það er meiri áskorun en áður að ná að sóttkvía einstakling í tæka tíð eftir útsetningu. Samkvæmt erlendum gögnum, meðal annars bandarísku sóttvarnastofnuninni CDC, er miðgildi meðgöngutíma ómíkrón-afbrigðisins 3 dagar, samanborið við 5 daga hjá deltaafbrigðinu.

Fátíðari og styttri innlagnir

Á opnum fundi velferðarnefndar Alþingis á þriðjudaginn sl. kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis að gögn sýndu að innlagnatíðni ómíkrón-afbrigðisins væri um 0,3% af greindum smitum, samanborið við 1,7% innlagnatíðni delta afbrigðis.

Útbreiðsla smita í yfirstandandi bylgju er margföld á við fyrri bylgjur, en við jafn víðtæka útbreiðslu og raun ber vitni, og að teknu tilliti til þess hve hátt hlutfall greindra sýnir lítil sem engin sjúkdómseinkenni, má ætla að smit séu í reynd mun fleiri en greind hafa verið og tíðni innlagna vegna ómíkrón því í reynd enn lægri. Þá gerir hlutfallið ekki greinarmun á því hvort innlögn sé vegna COVID-19 sjúkdómsins sjálfs eða hvort sýktur einstaklingur leggist inn af öðrum ástæðum, en við útbreitt samfélagssmit eykst tíðni þess að einstaklingar lagðir inn af fjölbreyttum ástæðum séu jafnframt sýktir af veirunni án þess að innlögnin sé henni tengd. Tíðni alvarlegra veikinda er því margfalt lægri en vegna Delta.

Þá benda gögn til þess að meðal innlagnarlengd ómíkrón veikra sé umtalsvert styttri en áður, en styttri legutími eykur getu spítalans til að taka við fleiri innlögnum. Í vikunni fjallaði Reuters til að mynda um gögn frá SuðurAfríku sem sýndu að meðalinnlagnartími hafði fallið úr nær 9 dögum í 4 daga með ómíkrónafbrigðinu. Ekki er ólíklegt að þróunin sé í sömu átt hér á landi en gögn liggja ekki fyrir.

Delta tekur pláss

Þrátt fyrir að innlagnatíðni ómíkrónsmitaðra sé jafn lág og raun ber vitni getur hröð útbreiðsla smita leitt til nokkurs fjölda innlagna á hverjum tíma, enda fjöldinn sem hin lága tíðni nær til á hverjum tíma margfaldur á við fyrri afbrigði, og þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Mun Landspítalinn geta annað þeim fjölda sem liggur inni á hverjum tíma við óhefta útbreiðslu ómíkrónsmita?

Svarið við þeirri spurningu liggur ekki ljóst fyrir eins og sakir standa. Delta-afbrigðið gengur enn þótt dagleg smit afbrigðisins séu komin undir 10% af heildarsmitum. Stór hluti innlagna er rakinn til þessa afbrigðis og langflestar gjörgæsluinnlagnir sömuleiðis. Því hefur þó verið spáð að delta-afbrigðið muni hverfa innan fárra vikna og mun sú þróun að öðru óbreyttu létta róður spítalans. Enn á eftir að koma betur í ljós hver áhrif samspil brotthvarfs delta við lægri innlagnartíðni og skemmri legutíma ómíkrón verða á innlagnarfjölda á spítalanum, auk þess sem sóttvarnalæknir og Íslensk erfðagreining vinna nú að því að kanna hve útbreitt ónæmi er orðið í samfélaginu, sem eðli máls samkvæmt er mikilvæg breyta. Þá hefur verið bent á að samkvæmt starfsemistölum sjúkrahússins hafa innlagnir ekki fleiri en í venjulegu árferði, og langtum færri en þegar mest lét síðasta vetur, en fjöldi starfsmanna spítalans sem er í sóttkví og einangrun hefur verið mikill á hverjum tíma og verklag þar um mun strangara en þegar inflúensufaraldur geysar.

Vonir eru þó bundnar við að ómíkrón-afbrigðið sé upphafið á endalokum faraldursins og sagði sóttvarnalæknir á fundi velferðarnefndar útlit fyrir að hjarðónæmi næðist með náttúrulegum sýkingum á komandi vikum eða mánuðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .