Virði Play Air hf. „að minnsta kosti til“ 10 milljón bandaríkjadala, andvirði ríflega 1.200 milljóna króna á gengi dagsins, samkvæmt sérfræðiskýrslu endurskoðanda vegna hlutafjárhækkunar félagsins. Enn fremur hafi heimsfaraldurinn gefið forsvarsmönnum færi á að undirbúa jómfrúarferðina og starfsemina betur. Þetta kemur fram í aukatilkynningu sem nýverið var send fyrirtækjaskrá.

Aðalfundur Play fór fram mánudaginn 12. apríl síðastliðinn en þar var hlutafé félagsins lækkað til jöfnunar á tapi. Í kjölfarið var samþykkt að hækka hlutafé að nýju með því að breyta skuld félagsins við FEA ehf. en starfsemi flugfélagsins hefur verið fjármögnuð af félaginu fyrstu starfsmánuði þess. Umrædd fjármögnun fór fram með 10 milljón bandaríkjadala vaxtalausri lánveitingu.

Virðismat félagsins byggði á áætlunum stjórnenda sem gera ráð fyrir að lagt verði af stað í fyrstu ferð þess á þessu ári. Áætlanirnar ná til ársins 2025 en við það tímamark er gert ráð fyrir því að uppbyggingarfasa sé lokið. Að mati endurskoðandans er framsetning hennar afar nákvæm.

„Tekjuuppbygging dregur mark sitt af reynslu stjórnendateymisins af fyrri uppbyggingu lággjaldaflugfélags að teknu tilliti til ástandsins sem hefur skapast vegna Covid-19 heimsfaraldursins. [Faraldurinn] hefur gefið forsvarsmönnum félagsins ráðrúm til að undirbúa hina eiginlegu starfsemi betur en þeir ætluðu sér í upphafi, m.a. með fleiri samningaviðræðum við flugvélaleigjendur og aðra birgja sem hefðu við aðrar kringumstæður ekki geta gefið álíka tækifæri eins og félagið hefur í höndunum í dag,“ segir í skýrslunni. Það sé til þess fallið að vega upp á móti óvissuþáttum.

Hægt að sækja 20 milljónir dala til viðbótar

Á aðalfundinum voru samþykktar nýjar samþykktir félagsins. Samkvæmt þeim eru útgefnir hlutir nú 100 milljónir króna að nafnvirði en stjórn hefur heimild út júní til að allt að fimmfalda það. Þá er heimilt til ársloks 2022 að hækka hlutafé að nýju um 200 milljónir króna að nafnvirði með hlutafjárútboði. Enn fremur var starfsmönnum félagsins veittur kaupréttur að bréfum í félaginu, nafnvirði 47,5 milljónir króna, sem gildir til fimm ára frá dagsetningu aðalfundarins. Í öllum tilfellum falla núverandi hluthafar frá forgangsrétti sínum við umræddar hækkanir.

Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu fyrir rúmum mánuði að forsvarsmenn Play hefðu fundað með mögulegum fjárfestum um aðkomu að félaginu. Fjármögnunin, um fimm milljarðar króna, á að tryggja starfsemi þess út árið 2022. Einnig var sagt frá því að stefnt væri að skráningu á First North markaðinn.

Í Markaðnum í liðinni viku kom síðan fram að Play hefði lokið yfir 40 milljóna dala fjármögnun. Stærstu hluthafarnir í kjölfar þess hefðu verið, auk fyrrgreinds FEA, Fjárfestingafélagið Fiskisund, sem Einar Örn Ólafsson fer fyrir, og Birta lífeyrissjóður. Aðrir þátttakendur hefðu meðal annars verið Stoðir, VÍS og sjóðir í stýringu hjá Akta.

Þess má til gamans geta, fyrir áhugafólk um stimpla, að eitthvað hefur stimpillinn klikkað hjá fyrirtækjaskrá þennan dag því móttökustimplunin er dagsett 13. apríl 2026.