Hagnaður af rekstri Kemi ehf., sem að flytur inn og dreifir efna- og öryggisvörum, nam 47 milljónum fyrir árið 2020 í samanburði við 16 milljónir árið á undan. Þreföldun í hagnaði má rekja til margföldunar í sölu á sóttvarnarvörum vegna Covid-19 og yfirtöku á bílavarahlutafyrirtækinu B-Auto í ársbyrjun 2020 að sögn Hermanns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Kemi.

Velta félagsins jókst um 75% árið 2020 og var rúmlega 1,05 milljarðar í árslok. Þá jukust eignir um 205 milljónir á milli áranna 2019 og 2020, eða úr 265 milljónum í 470 milljónir. Eigið fé  í árslok 2020 nam 121 milljón sem að er 63% hækkun frá árinu 2019. Eiginfjárhlutfall félagsins var 26% í árslok.

Skuldir félagsins námu samtals tæpum 349 milljónum í lok árs 2020 og jukust um 85% á tímabilinu. Aðspurður út í aukna skuldastöðu félagsins segir Hermann „hluthafar lánuðu inn pening til að kaupa B-Auto og eins til að standa undir stórauknum lager sem að við tókum inn tímabundið á meðan að þessi Covid bylgja gengur yfir og hafa þær allar verið greiddar upp".

Félagið sér fram á aðra eins afkomu í ár og var á síðasta ári. „Árið fer mjög vel af stað og eins og staðan er núna stefnir í mjög svipaðan rekstrarárangur og í fyrra."

Hermann segist ekki hafa áhyggjur af rekstri félagsins þegar að Covid-19 lýkur og segir:
„Kemi er 24 ára gamalt félag og hefur alla tíð skilað ágætis hagnaði, við reiknum með minniháttar samdrætti í umsvifum eftir að Covid lýkur en við erum á fullu að leita að nýjum tækifærum eftir þetta ár að halda áfram að vaxa bara hægt og rólega, annað hvort með innri vexti eða kaupum á minni fyrirtækjum sem að myndu passa við okkar módel."

Stærstu hluthafar Kemi ehf. eru þeir Hermann Sævar Guðmundsson með 37% hlut og Bjarni Ármannsson með 34% hlut.