Þyrluskíðafyrirtækið Viking Heliskiing var rekið með 38 milljóna króna tapi á síðasta ári, samanborið við 14 milljóna króna hagnað árið áður. Tekjur félagsins drógust verulega saman frá fyrra ári úr 116 milljónum króna í 15 milljónir, eða um 87%.

Í skýrslu stjórnar í ársreikningi félagsins segir að COVID-19 faraldurinn hafi haft veruleg áhrif á starfsemi þess og orðið valdið ofangreindu tekjufalli. Stjórn félagsins telji félagið þó rekstrarhæft þar sem að á árinu hafi fjárfestar komið að félaginu. Það sé því nú hluti af stærri einingu sem hafi fjárhagslega burði til að reka félagið í gegnum óvissutíma.

Eignir félagsins námu 45 milljónum króna í lok síðasta árs og stóðu nær í stað milli ára. Eigið fé var neikvætt um 37 milljónir króna, en árið áður var það jákvætt um 16 milljónir króna. Skuldir jukust úr 32 milljónum króna í 82 milljónir milli ára.

Viking Heliskiing er að fullu í eigu félagsins Höfða Icelandic Adventures ehf., sem stofnendur Viking Heliskiing, Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, eiga helming í á móti James Russel Deleon.