Hagnaður Landsvirkjunar lækkaði úr 40,6 milljónum dollara um 5,6 milljarða króna miðað við 68,6 milljónir dollara á fyrri helmingi ársins. Á öðrum fjórðungi lækkar hagnaðurinn úr 27,4 milljónum dollara í 9 milljónir dollara milli ára.

Tekjur Landsvirkjunar lækkuðu um 35 milljónir dollara á fyrri helmingi ársins miða við sama tímabil fyrir ári. Þá lækkuðu rekstrartekjurnar á öðrum ársfjórðungi um 26 dollara á milli ára og 25 milljónir dollara miðað við fyrsta ársfjórðung. Í uppgjörinu er bent á að Landsvirkjun hafi veitt stórnotendum allt að 25% afslátt frá byrjun maí og út október vegna stöðunnar í heimshagkerfinu.

Afurðaverð viðskiptavina, t.d. á áli og kísli hafi lækkað hratt, að hluta til vegna offramleiðslu og birgðasöfnunar, samhliða því að raforkuverð á stórmörkuðum hefur lækkað vegna lægra verðs á jarðefnaeldsneyti og minni eftirspurnar vegna heimsfaraldursins. Raforkusala var 104 milljónir dollara á öðrum fjórðungi 2019 miðað við 80 milljónir dollara á öðrum fjórðungi í ár. Rekstrarhagnaður lækkaði úr 62 milljónum dollara í 39,5 milljónir dollara á fjórðungnum milli ára.

Lægri vaxtakostnaður vegur á móti tekjutapinu, en vaxtagjöld félagsins lækkuðu úr 36 milljónum dollara í 30,9 milljónir dollara á fyrri helmingi ársins milli ára. Landsvirkjun hefur lagt áherslu á niðurgreiðslu skulda undanfarin ár. Nettó skuldir félagsins voru tæplega tveir milljarðar dollara um mitt ár 2018 en voru ríflega 1,6 milljarðar dollara um mitt þetta ár. Eigið fé var 2,2 milljarðar dollara um mitt þetta ár.

Verð á Nord-Pool lækkað um 75%

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir afkomuna litaða af erfiðu efnahagsástandi í heiminum. „COVID-19 faraldurinn hefur valdið samdrætti í eftirspurn hjá okkar helstu viðskiptavinum og sér þess merki í tekjum fyrirtækisins á tímabilinu, sér í lagi á öðrum fjórðungi ársins. Landsvirkjun hefur sem kunnugt er stutt við bakið á stórnotendum á þessum erfiðu tímum með því að bjóða þeim rafmagn á afsláttarkjörum til 31. október næstkomandi,“ segir Hörður.

„Selt heildarmagn raforku lækkaði um 6% milli ára og hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði dróst saman um 28% og nam 9,7 milljörðum króna. Þá lækkaði meðalálverð á tímabilinu um 13% og verð á Nord Pool-markaðinum um 75%, en hluti rafmagnsverðs til stórnotenda er tengdur þessum breytum. Þrátt fyrir þessar erfiðu ytri aðstæður tókst að lækka nettó skuldir um 8,4 milljarða króna frá áramótum. Horfur í rekstrarumhverfinu eru óvissar, en þær velta að miklu leyti á því hversu vel tekst að fást við útbreiðslu kórónuveirunnar og koma efnahagslífi heimsins í gang á ný. Rekstur aflstöðva gekk vel á tímabilinu og vil ég þakka starfsfólki fyrirtækisins fyrir að leggja sig allt fram um að tryggja truflanalausan rekstur á meðan á þessum skæða faraldri hefur staðið,“ segir Hörður.