Isavia og danska fyrirtækið Crisplant A/S undirrituðu sl. fimmtudag samning um stækkun og endurbætur á farangursflokkunarkerfi Keflavíkurflugvallar sem lokið verður við í byrjun sumars.

Í tilkynningu frá ISAVIA segir að verksamningurinn  feli í sér tvöföldun á afkastagetu farangursflokkunarkerfisins sem eftir breytinguna geti flokkað alls 86 farangurstöskur á mínútu. „Kerfið er grundvöllur þess að innrita mikinn fjölda flugfarþega á skömmum tíma og tryggja að farangur skili sér á réttan áfangastað. Notkun sjálfsinnritunarstöðva hefur aukið afkastagetu umtalsvert á flugvellinum og eru endurbætur farangurskerfisins liður í að mæta síauknum farþegafjölda og auka þjónustu enn frekar,“ segir í tilkynningu frá ISAVIA

„Farangursflokkun fer fram með tölvustýrðu færibandakerfi sem flokkar og flytur farangur að vögnum fyrir hverja flugvél og er hann jafnframt skimaður um leið í leit að ólöglegum varningi vegna flugverndar. Mikil umferðaraukning hefur hefur orðið á Keflavíkurflugvelli að undanförnu og hefur búnaðurinn verið starfræktur með hámarksafköstum undanfarin tvö ár. Með endurbótunum fæst aukið öryggi og jafnvægi í rekstrinum og er stýribúnaður endurnýjaður til samræmis við nýjustu þjónustukröfur,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Þá segir í tilkynningunni að smíði og uppsetning kerfisins hafi verið boðin út á vegum Ríkiskaupa fyrr á þessu ári en Crisplant A/S sé umsvifamikill framleiðandi flokkunarkerfa fyrir flugstöðvar, vöruhús og dreifingarmiðstöðvar. Þrjú tilboð bárust og er heildarupphæð samningsins um 645 milljónir króna.