„Það að verðleggja rafmagn með þeim hætti að það sé ódýrara að nota olíu er algjörlega fáránleg hugmynd. Bæði út frá sjónarhóli Vinnslustöðvarinnar og þjóðarbúsins,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, í samtali við Markaðinn um verðlagningu á rafmagni til bræðslu í Vestmannaeyjum.

Þar kemur fram að HS Veitur og Landsnet vinni nú að því að reisa spennistöð í Vestmannaeyjum og vonast sé til að hægt verði að tvöfalda þau 22 megavött sem nú er hægt að flytja til eyjanna að framkvæmdum loknum. Fiskvinnslur í bæjarfélaginu segja það hins vegar óljóst hvort það svari kostnaði að hætta notkun olíu við bræðslu þrátt fyrir þessar breytingar.

Sigurgeir segir að þegar mest láti sé um þriðjungur orkunotkunar Vinnslustöðvarinnar fenginn með olíubrennslu. Segir hann jafnframt að án þess að fá tryggingu fyrir því að raforkuverð haldist hagstætt geti Vinnslustöðin ekki réttlætt fjárfestingar í að breyta búnaði til þess að auka raforkunotkun.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna, segir hins vegar í samtali við Markaðinn að fiskvinnslurnar verði að ákveða sjálfar hvort það borgi sig að hætta að nota olíu. „Það er þeirra mál en ekki okkar,“ segir hann.