Endurvinnsla getur staðið undir sér í milljónasamfélögum þar sem landrými er takmarkað. Slíkt á ekki við hér, að mati Arnar Sigurðssonar. Hann skrifar grein um viðhorf fólks til endurvinnslu í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins . Þar segir hann umræðuna um endurvinnslu á villugötum og ættu margir að efast um hana í ljósi þess að búið er að verja hundruðum milljóna af almannafé í móttöku og endurvinnslustöðvar.

Arnar bendir m.a. á það í grein sinni að meiri orku þurfi til að endurvinna gler sem skilað er til Sorpu en fer í að búa til nýtt og því allt gler einfaldlega mulið og urðað hér á landi.

Arnar skrifar:

„Líklega nær sirkus fáránleikans hæstu hæðum þegar kemur að söfnun og endurvinnslu á dagblaða- og umbúðapappír. Eftir allan tilkostnað vegna söfnunar, böggunar og útflutnings, kemur í ljós að baggarnir eru afhentir ýmist ókeypis eða því sem næst á hafnarbakka erlendis.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum  tölublöð .