Stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi heimta hærri flugvallarskatta af farþegum sem fljúga til Íslands og annarra EFTA-ríkja en af farþegum sem fljúga til aðildarríkja Evrópusambandsins, auk þess sem hinir fyrrnefndu verða að þola meiri álögur af öðru tagi. Bæði Evrópudómstóllinn og EFTA-dómstóllinn hafa hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að slík mismunandi álagning gjalda í farþegaflugi samræmist ekki reglum Evrópska efnahagssvæðisins.

Icelandair hefur nýlega vakið máls á þessu við íslensk stjórnvöld. Telur Icelandair að skattheimta af þessu tagi sé í ósamræmi við EES-samninginn þar sem augljóslega er verið að mismuna farþegum eftir því hvert ferð þeirra er heitið innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Haft er eftir Grétari Má Sigurðssyni, skrifstofustjóra
viðskiptaskrifstofu, í vefriti utanríkisráðuneytisins hefur utanríkisráðuneytið tekið þetta mál upp við sendiráð Þýskalands og Frakklands hér á landi og
óskað eftir því að þessi mismunun í gjaldtöku verði afnumin. ,,Sendiráð okkar í Berlín og París munu jafnframt bera málið upp við stjórnvöld í þessum ríkjum. Þá munum við vekja máls á þessu eftir öðrum leiðum og leggja áherslu á að farþegar sem fljúga til Íslands frá þessum aðildarríkjum EES þurfi ekki að sæta mismunun af þessu tagi?, sagði Grétar Már í samtali
við Stiklur.

Jafnframt mun Ísland leggja fram kvörtun í svonefndu SOLVIT-kerfi, en það er gagnvirkt kerfi sem tengir stjórnvöld í öllum 28 aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og er ætlað að leysa hratt og örugglega úr málum sem upp kunna að koma þegar einstök aðildarríki virða ekki reglur innri
markaðarins.