Alls flugu um 2,3 milljónir farþega með breska lágfargjaldaflugfélaginu easyJet í nýliðnum janúarmánuði sem er aukning um 11,2% á milli ára. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans. Sætanýting félgsins var 74,2% á sama tíma, en hún stendur nokkurn veginn í stað á milli ára.

Í Vegvísinum er bent á að forstjóri félagsins er ánægður með tölurnar og segir fjölda seldra miða í janúar vera í takt við áætlanir. Þá segir hann að búist sé við að tekjuvöxtur á yfirstandandi rekstrarári verði á bilinu 5-10%, en uppgjörstímabili félagsins lýkur í lok september.

Gengi hlutabréfa í easyJet í Kauphöllinni í London hefur hækkað um rúm 66% síðastliðna tólf mánuði. Íslenska fjárfestingafélagið FL Group er næst stærsti hluthafinn í félaginu með um 16.18% hlut. M.v. gengi easyJet, sem nú stendur í 378 pensum, má áætla að markaðsvirði hlutar FL Group sé tæpir 27,2 ma.kr.