Farþegum í millilandaflugi Icelandair fjölgaði um 15,7% í júní í ár í samanburði við júní á síðasta ári. Framboð félagsins jókst um 24,3% og salan um 23,3% þannig að sætanýting varð 82,3% í mánuðinum, um hálfu prósentustigi lægri en í fyrra, þegar hún var 82,9%. Á fyrri helmingi ársins hefur farþegum Icelandair fjölgað um 12,7% milli ára, þeir eru nú 668 þúsund, en voru 593 þúsund á sama tíma í fyrra. Sætanýting hefur aukist um 2,6 prósentustig, en framboðið á fyrstu sex mánuðunum var aukið um 12,3% frá því á árinu 2004.

Farþegum í innanlandsflugi Flugfélags Íslands fjölgaði um 7,7 % í samanburði við júní á síðasta ári, og voru rúm 30 þúsund. Á fyrstu sex mánuðum ársins voru þeir 6 % fleiri en í fyrra.

Flutningar hjá Icelandair Cargo voru 3,2% minni í júní í ár en í fyrra og hafa dregist saman um 0,3% á fyrstu sex mánuðum ársins.

Fartímar (block-hours) hjá Loftleiðum-Icelandic voru 56% fleiri en á sama tíma í fyrra og á fyrstu sex mánuðum ársins voru fartímarnir 17% fleiri en í fyrra.

Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri FL GROUP segir um þessar niðurstöður: "Farþegafjöldinn í júní helst nokkurn veginn í hendur við mikla framboðsaukningu í samanburði við síðasta ár. Aukningin er einkum vegna fjölgunar farþega sem eru á leið yfir Norður-Atlantshafið, milli Bandaríkjanna og Evrópu, en fjölgun farþega til Íslands er undir væntingum. Fraktflutningar hjá Icelandair Cargo dragast lítillega saman, fyrst og fremst vegna minni útflutnings til Bandaríkjanna vegna gengis dollarans, en leiguflug Loftleiða-Icelandic er að aukast mjög vegna nýrra samninga."