Á árinu 2004 flutti lágfargjaldafélagið Iceland Express 88% fleiri farþega en 2003, sem var fyrsta starfsár félagsins. Alls flugu 255.640 farþegar með Iceland Express á nýliðnu ári, en 136.100 árið áður. Iceland Express flutti tæplega 19% allra farþega til og frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll á árinu 2004. Hæst varð hlutfallið í maímánuði, en þá fóru 24% allra farþega til og frá Íslandi með Iceland Express.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að meginskýring þessarar fjölgunar farþega er að Iceland Express jók sætaframboð þann 1. apríl með tilkomu nýrrar þotu til félagsins. Með öflugu markaðsstarfi og góðu framboði af lágum fargjöldum tókst stax í apríl og maí að fjölga farþegum um helming. Ferðum var síðan fækkað til fyrra horfs þann 1. des. síðastliðinn.

Af farþegum Iceland Express á árinu 2004 voru erlendir ferðamenn alls 110 þúsund, eða 43%. Mikill meirihluti þeirra var frá Norðurlöndunum og Bretlandi. Reikna má með að um 16% erlendra ferðamanna sem komu til Íslands 2004 hafi ferðast með Iceland Express.