Farþegar Icelandair í september voru tæplega 132 þúsund og fjölgaði um 14,7% frá því í september í fyrra en þá voru þeir 115 þúsund. Sætanýting félagsins í mánuðinum var 79% og hækkaði um 2,8 prósentustig frá fyrra ári. Frá áramótum hefur farþegum Icelandair fjölgað um 14,5% og eru rúmlega 1,2 milljónir. Sætanýting hefur batnað um 2,5 prósentustig og er á fyrstu níu mánuðum ársins 78,2%.

Farþegum Flugfélags Íslands í innanlandsflugi fjölgaði um 6% í september og voru rúmlega 28 þúsund. Þeim hefur fjölgað frá áramótum um 3,5%

Fluttum tonnum Icelandair Cargo fjölgaði um 11,7% frá fyrra ári og voru rúmlega 3.200 í mánuðinum. Þeim hefur fækkað á fyrstu níu mánuðum ársins um 0,1%

Fartímum (block-hours) í alþjóðlegu leiguflugi Loftleiða-Icelandic fjölgaði um 25% í ágúst og um 24% frá áramótum.

"Það sem stendur upp úr er hin gríðarlega fjölgun farþega hjá Icelandair í september og það sem af er árinu. Það var tekin ákvörðun um að auka sætaframboð Icelandair mikið fyrir árið, og salan hefur gert gott betur en fylgja því eftir, þannig að sætanýting er 2,5 prósentustigum betri en í fyrra, sem er mjög jákvætt," segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group.