Icelandair flutti rúmlega 73 þúsund farþega í apríl sl., sem er 17% fækkun á milli ára. Þá nemur farþegafjöldi félagsins fyrstu fjóra mánuði ársins rúmlega 300 þúsund sem er um 8% aukning á milli ára.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningstölum frá Icelandair Group sem sendar eru Kauphöllinni. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins má að mestu rekja samdrátt í farþegafjölda í apríl til eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli en sem kunnugt er hefur félagið þurft að aðlaga leiðarkerfi sitt talsvert vegna þess.

Farþegafjöldi Flugfélags Íslands í febrúar var tæplega 23 þúsund í apríl og fækkaði um 22% á milli ára. Þá hefur farþegafjölda Flugfélags Íslands fækkað um 6% á milli ára fyrstu fjóra mánuði ársins og nemur tæplega 103 þúsund.

Fraktflug á vegum samstæðunnar dróst verulega saman í apríl eftir að hafa aukist lítillega í mars, en í apríl dróst fraktflug saman um 29% á milli ára. Samdrátturinn í fraktflugi á milli ára nemur þó aðeins 2% fyrstu fjóra mánuði ársins.