Dótturfélög Icelandair Group fluttu 95 þúsund farþega í janúar, sem er 13% aukning á milli ára. Þá fluttu félögin alls um 1.660 þúsund farþega á árinu 2009 sem er um 10% fækkun á milli ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group sem nú sendir mánaðarlega frá sér flutningstölur auk þess sem heildaryfirlit yfir síðasta ár liggur nú fyrir.

Tekjur samstæðunnar á hvern farþega jukust um 3% í janúar á milli ára, en lækkuðu þó um 9% á milli ára á síðasta ári. Þannig nema tekjurnar á síðasta ári um 3,5 milljörðum króna, samanborið við tæpa 3,9 milljarða árið 2008.

Samdrátturinn í fraktflugi samstæðunnar heldur áfram að lækka en í janúar nam samdrátturinn 15% á milli ára. Þá nemur samdrátturinn árið 2009 um 28% á milli ára.

Eins og áður hefur verið greint frá er Travel Service, frá og með nóvember 2009, ekki lengur í meirihlutaeigu Icelandair Group og er því eru tölur vegna þess ekki í mánaðarlegum flutningatölum. Þá hafa tölur frá 2008 jafnframt verið uppfærðar vegna þessa.

Ef aðeins er horft til Icelandair, sem er langstærsta dótturfélag samstæðunnar, þá var sætanýtingin í reglulega áætlunarflugi 75% á síðasta ári, sem er sama sætanýting og árið 2008 og svipuð og fjögur undanfarin ár. Icelandair dró úr flugframboði sínu um 9% frá árinu á undan og farþegum fækkaði því einnig um 9% og voru alls um 1,3 milljónir á árinu 2009.