Tæplega 93 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í marsmánuði, samkvæmt tölum frá flugvellinum.

Frá áramótum, það er á fyrsta ársfjórðungi, fóru tæplega 379 þúsund farþegar um völlinn sem er 31,3% samdráttur sé miðað við sama tímabil í fyrra.

Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu en fækkunin í mars nemur 37% en hafa ber í huga í þessu sambandi að í fyrra taldist páskaumferðin með marsmánuði en kemur inn í apríltölur í ár.

Farþegar á leið frá landinu voru 41.678 í mars síðastliðnum en á leið til landsins voru 41.198 farþegar. Áfram- og skiptifarþegum fækkar einnig á milli ára.

Nánari skiptingu má sjá í töflu á vef Ferðamálastofu.